Enski boltinn

Raya að skrifa undir nýjan samning

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
David Raya hefur varið mark Arsenal undanfarin þrjú tímabil.
David Raya hefur varið mark Arsenal undanfarin þrjú tímabil. epa/VINCE MIGNOTT

Markvörður Arsenal, David Raya, mun skrifa undir nýjan samning við félagið. Hann fær ekki lengri samning en hærri laun.

Arsenal keypti Raya frá Brentford sumarið 2024 eftir að hann hafði leikið sem lánsmaður með liðinu tímabilið 2023-24. Samningur hans við Arsenal gildir til 2028 með möguleika á árs framlengingu. Spánverjinn fær hundrað þúsund pund í vikulaun en þau koma til með að hækka með nýja samningnum.

Hinn þrítugi Raya hefur leikið á Englandi allan sinn feril, fyrst með Blackburn Rovers frá 2014 til 2019 þegar hann fór til Brentford. Raya var lánaður til Southport tímabilið 2014-15.

Raya fékk Gullhanskann 2024 og 2025 en hann er veittur þeim markverði sem heldur oftast hreinu í ensku úrvalsdeildinni.

Raya hefur leikið alla sjö leiki Arsenal í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili og haldið fjórum sinnum hreinu. Skytturnar eru með eins stigs forskot á toppi deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×