Fótbolti

„Örugg­lega enginn sem nennir að hlusta á það“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Halldór Árnason var ánægður að sjá níu uppalda Blika spila gegn atvinnumannaliði frá Sviss. 
Halldór Árnason var ánægður að sjá níu uppalda Blika spila gegn atvinnumannaliði frá Sviss.  vísir

Halldór Árnason var sáttur með margt en svekktur með mörkin sem Breiðablik gaf frá sér í 3-0 tapi gegn Lausanne í fyrstu umferð Sambandsdeildarinnar. Meðal þess sem Halldór var sáttur við að sjá voru níu uppaldir Blikar inni á vellinum, þó hann segi engan nenna að hlusta á það þegar stórt tap er annars vegar.

„Við byrjum leikinn virkilega vel og fáum góðar stöður til að komast yfir en því miður, eins og hefur gerst áður í Evrópu, þá köstum við leiknum frá okkur á stuttum tíma… Þetta er sviðsmynd sem við höfum séð áður í Evrópu, við spilum vel úti á velli en köstum þessu frá okkur með ódýrum mörkum“ sagði Halldór um leikinn.

Hann sagði leikplanið sem hann lagði upp með hafa gengið vel eftir, liðið hafi sinnt sínum hlutverkum og skapað sér margar góðar stöður en gefið mörk frá sér, sem sé algjörlega óboðlegt.

Breiðablik er enn í leit að sínum fyrstu stigum í Sambandsdeildinni en fær fimm tækifæri til viðbótar í vetur. Halldór segir markmið liðsins þó lúta að fleiru en bara stigasöfnun.

„Markmiðið er auðvitað að vinna leiki og fá stig en við erum líka með markmið um að geta spilað við þessi lið á jafningagrundvelli, eins og mér fannst við gera í dag.

Það er örugglega enginn sem nennir að hlusta á það, en við spilum með níu uppalda Blika á móti stóru atvinnumannaliði frá Sviss. Menn geta verið stoltir af því og það er auðvitað markmið Breiðabliks líka.

Við gerðum margt mjög vel en á endanum fáum við tvö mörk á okkur, sem við getum ekki boðið upp á, og niðurstaðan varð eftir því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×