Fótbolti

Í vanda eftir að hafa sýnt löngu­töng

Sindri Sverrisson skrifar
Steffen Baumgart veifaði löngutönginni eftir að hafa fengið rauða spjaldið.
Steffen Baumgart veifaði löngutönginni eftir að hafa fengið rauða spjaldið. Skjáskot/DAZN

Steffen Baumgart, þjálfari Union Berlín í þýsku 1. deildinni í fótbolta, kom sér í vandræði í gær með því að gera fokkjú-merki.

Baumgart var orðinn argur og pirraður á hliðarlínunni í leiknum gegn Frankfurt í gær, þrátt fyrir að Union Berlín væri yfir, og endaði á að fá rautt spjald.

Hann var sérstaklega óánægður með vítaspyrnudóminn þegar Frankfurt náði að minnka muninn í 4-3, en vítaspyrnan kom á 87. mínútu eftir skoðun á myndbandi.

Fleiri mörk voru ekki skorðu í leiknum en Baumgart endaði á að fá rautt spjald fyrir að sparka pappírsbolta, sem barst úr stúkunni, inn á völlinn.

Á sjónvarpsmyndum sást svo þegar Baumgart gekk enn lengra og veifaði löngutöng sem féll ekki í kramið hjá þýska knattspyrnusambandinu. Í viðtali eftir leik vildi hann þó ekki meina að fokkjú-merkinu hefði verið beint að dómaranum né neinum öðrum.

Baumgart hefur nú verið beðinn um að senda skriflegt svar til að útskýra hegðun sína áður en úrskurðað verður í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×