Enski boltinn

Verður væntan­lega ráðinn 89 dögum eftir að hann var rekinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Chris Wilder er öllum hnútum kunnugur hjá Sheffield United.
Chris Wilder er öllum hnútum kunnugur hjá Sheffield United. epa/PETER POWELL

Chris Wilder stýrði æfingu hjá Sheffield United í dag, 89 dögum eftir að hann var rekinn sem knattspyrnustjóri enska B-deildarliðsins.

Rubén Sellés var sagt upp sem stjóra Sheffield United eftir skelfilega byrjun á tímabilinu. Liðið hefur tapað öllum fimm deildarleikjum sínum með markatölunni 1-12. Eftir 5-0 ósigur fyrir Ipswich Town á föstudaginn fengu forráðamenn Sheffield United nóg og ráku Sellés.

Hann tók við Sheffield United í sumar, af Wilder sem var rekinn eftir tap fyrir Sunderland í úrslitaleik umspils um sæti í ensku úrvalsdeildinni.

Nú bendir flest til þess að Wilder verði ráðinn aftur til Sheffield United. Hann er öllum hnútum kunnugur hjá félaginu. Hann stýrði því á árunum 2016-21 og 2023-25. Undir stjórn Wilders komst Sheffield United í ensku úrvalsdeildina og lenti í 9. sæti hennar tímabilið 2019-20.

Á síðasta tímabili endaði Sheffield United í 3. sæti ensku B-deildarinnar og komst í úrslit umspilsins þar sem liðið laut í lægra haldi fyrir Sunderland á Wembley, 2-1.

Næsti leikur Sheffield United er gegn Charlton Athletic á heimavelli á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×