Tónlist

Írar snið­ganga Euro­vision taki Ísrael þátt

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Hin norska Emmy keppir fyrir hönd Íra í ár.
Hin norska Emmy keppir fyrir hönd Íra í ár. Getty/Jens Büttner

Ríkisútvarp Írlands hefur greint frá því að Írland muni ekki taka þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva á næsta ári fái Ísrael að vera með í keppninni.

Ríkisútvarpið Raidió Teilifís Éireann (RTÉ) greindi frá þessu í tilkynningu á vefsíðu sinni upp úr hádegi í dag.

„Á allsherjarþingi Samtaka evrópskra ríkissjónvarpsstöðva (EBU) í júlí gerði fjöldi EBU-meðlima athugasemd við þáttöku Ísraels í Eurovision,“ segir í tilkynningunni. 

Samtökum evrópskra ríkissjónvarpsstöðva (EBU) er jafnframt þakkað fyrir víðtækt samráðsferli sem fór af stað í kjölfar fundarins og framlengingu á þeim möguleika að segja sig úr keppninni án refsingar til desember. 

Afstaða RTÉ sé að Írlandi muni ekki taka þátt í næstu keppni fari svo að Ísrael verði með. Lokaákvörðun um þátttöku Írlands verði tekin þegar EBU verður búið að taka ákvörðun um Ísrael. 

„RTÉ telur að þátttaka Írlands yrði óforsvaranleg í ljósi áframhaldandi og skelfilegs mannfalls í Gasa. RTÉ er einnig umhugað um markviss morð á blaðamönnum í Gasa, að alþjóðlegum blaðamönnum sé meinað aðgengi að svæðinu og bágum aðstæðum eftirlifandi gísla,“ segir einnig í tilkynningunni.

Fyrir tveimur dögum tilkynnti Ríkisútvarpið að Ísland tæki þátt í Eurovision í Vínarborg á næsta ári, með þeim fyrirvara að niðurstaða samráðs innan Sambands evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU) um þátttöku Ísraels lægi fyrir. 

Slóvenar höfðu sent frá sér svipaða yfirlýsingu degi fyrr en þátttaka Ísraels hefur verið umdeild vegna átaka fyrir botni Miðjarðahafs.

Rúnar Freyr Gíslason, verkefnastjóri sjónvarps hjá RÚV, sagði í fyrradag að hann teldi afar ólíklegt að Ísland tækiþátt í Eurovision á næsta ári verði Ísrael með. Ótti hafi gripið um sig á keppninni í ár þegar það leit út fyrir að Ísrael gæti unnið keppnina.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.