Fótbolti

Onana græðir á skiptunum til Tyrk­lands

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Onana ætti að eiga auðveldara með að sætta sig við hlutskiptin þegar bónusgreiðslur fara að detta inn. 
Onana ætti að eiga auðveldara með að sætta sig við hlutskiptin þegar bónusgreiðslur fara að detta inn.  Joe Prior/Visionhaus via Getty Images

André Onana, markvörður Manchester United verður lánaður til tyrkneska félagsins Trabzonspor á þessu tímabili. Þar mun hann græða meiri pening en hann hefði hjá enska félaginu.

Onana samþykkti í gærkvöldi að fara á láni til Trabzonspor. Hann gekk til liðs við Manchester United árið 2023 undir stjórn Erik Ten Hag og var ætlað stórt hlutverk eftir að David de Gea fór frá félaginu. Onana var hugsaður sem nútímamarkmaður, sem gæti tekið þátt í uppspilinu, en hefur valdið vonbrigðum allar götur síðan.

Á þessu tímabili var Onana haldið utan hóps í fyrstu leikjum í ensku úrvalsdeildinni, hann fékk síðan séns í bikarleik gegn Grimsby, en gaf fjórðu deildar liðinu mark og tókst aðeins að verja eina af fjórtán vítaspyrnum liðsins.

Nú hefur hann verið sendur á láni til Tyrklands og þar hlær Onana alla leið í bankann.

Tyrkneska félagið mun ekki aðeins greiða honum full laun, 120 þúsund pund á viku, hann mun einnig fá stóra eingreiðslu fyrir að skrifa undir lánssamninginn og félagið býður honum frammistöðutengdar bónusgreiðslur.

Þegar allt verður upptalið eftir tímabilið mun Onana því hafa þénað meira en hann hefði sem leikmaður Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×