Enski boltinn

Rio grínaðist með söngva Liverpool fólksins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gamli og nýi Rio í enska boltanum. Til vinstri ungstirnið hjá Liverpool Rio Ngumoha og til hægri goðsögnin Rio Ferdinand.
Gamli og nýi Rio í enska boltanum. Til vinstri ungstirnið hjá Liverpool Rio Ngumoha og til hægri goðsögnin Rio Ferdinand. EPA/ADAM VAUGHAN/GERRY PENNY

Það er komin nýr Rio í enska boltann og „gamli Rio“ leyfði sér að grínast aðeins með það.

Hinn sextán ára gamli Rio Ngumoha varð á mánudagskvöldið yngsti leikmaðurinn til að skora fyrir félagið í allri sögu Liverpool en hann náði metinu með eftirminnilegum hætti.

Strákurinn kom inn á sem varamaður í uppbótatíma og tryggði Liverpool öll þrjú stigin á erfiðum útivelli með því að skora sigurmarkið á móti Newcastle þegar tíu mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.

Rio Ngumoha hafði sýndi flott tilþrif á undirbúningstímabilinu en fékk ekki að spila í fyrstu umferðinni.

Nú fékk hann hins vegar tækifærið og nýtt það með yfirvegaðri og sannfærandi afgreiðslu þegar liðið hans þurfti svo sannarlega á því að halda.

Það hafa auðvitað allir í Liverpool fjölskyldunni keppst við að lofsyngja strákinn síðan og mótherjarnir gera sér grein fyrir því að þarna er líklegast að koma fram ný stórstjarna í boltanum.

„Gamli Rio“ hafði húmor fyrir öllu saman.

Rio Ferdinand var stórstjarna í ensku úrvalsdeildinni frá 1997 til 2011 og lengst af í hópi bestu varnarmanna deildarinnar. Hann vann sex Englandsmeistaratitla með Manchester United.

Ferdinand fór á netið og grínaðist með söngva Liverpool fólksins.

„Sérstakt fyrir mig að vakna í morgun, fara á netið og sjá myndbönd af stuðningsmönnum Liverpool syngja ‚Rio, Rio',“ skrifaði Rio Ferdinand en bætti svo við:

„Ég vil óska unga manninum og fjölskyldu hans til hamingju. Þvílíkt augnablik,“ skrifaði Ferdinand.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×