Fótbolti

Fengu milljóna sekt eftir ó­lætin á Ís­landi

Sindri Sverrisson skrifar
Stuðningsmenn Bröndby urðu sér til skammar á Íslandi, meðal annars með því að velta þessum kamri í Víkinni um koll.
Stuðningsmenn Bröndby urðu sér til skammar á Íslandi, meðal annars með því að velta þessum kamri í Víkinni um koll. Sýn Sport

Knattspyrnusamband Evrópu hefur nú sektað danska félagið Bröndby um jafnvirði tæplega 3,6 milljóna króna vegna ólíðandi framkomu hluta af stuðningsmannahópi liðsins á Íslandi á dögunum.

Stuðningsmenn Bröndby létu öllum illum látum eftir 3-0 tapið gegn Víkingum í Fossvogi, í fyrri leik liðanna í undankeppni Sambandsdeildar Evrópu.

Tapsárir Danirnir lentu í skærum við lögreglu eftir leik, þar sem piparúða var beitt, skölluðu stuðningsmann Víkings og ollu tjóni við Víkingsvöllinn: 

„Þeir eyðilögðu klósett hjá okkur, rifu fána og annað. Þetta er örugglega skaði upp á fimm milljónir,“ sagði Haukur Hinriksson, framkvæmdastjóri Víkings, eftir leikinn.

Þá komu stuðningsmennirnr sér á svartan lista hjá eigendum Ölvers í Glæsibæ með eignatjóni þar og áttu upptök að áflogum við stuðningsmenn Víkings fyrir utan staðinn.

Framganga stuðningsmannanna leiddi eins og fyrr segir til þess að UEFA hefur nú sektað Bröndby um 25.000 evrur.

Ole Palmå, stjórnandi hjá Bröndby, sagði við danska miðilinn Bold eftir leikinn í Víkinni að félagið myndi axla ábyrgð á framkomu stuðningsmannanna. Unnið yrði að því að finna út hverjir sökudólgarnir væru til að hægt yrði að setja þá í bann.

Bröndby vann svo reyndar seinni leikinn 4-0 og fór áfram úr einvíginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×