Körfubolti

ÍR-ingar sækja Grikkja á Álftanesið: „Sann­kallaðar gleði­fréttir“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dimitrios Klonaras í leik með Álftanesi í Bónus deild karla í körfubolta á síðustu leiktíð.
Dimitrios Klonaras í leik með Álftanesi í Bónus deild karla í körfubolta á síðustu leiktíð. Vísir/Hulda Margrét

Gríski körfuboltamaðurinn Dimitrios Klonaras ætlar ekki að yfirgefa íslenska körfuboltann því hann hefur náð samkomulagi um að spila með ÍR í Bónus deild karla í körfubolta á komandi vetri.

Klonaras spilaði með Álftanesliðinu á síðustu leiktíð sem var hans fyrsta tímabil eftir háskólanám í Bandaríkjunum.

Hann er 24 ára og 198 sentimetra lítill framherji sem var að skora einn þrista að meðaltali í leik í deildinni í fyrra.

Klonaras var í stóru hlutverki hjá Álftanesi og var með 13,0 stig, 7,8 fráköst og 2,0 stoðsendingar að meðaltali í leik. Hann hækkaði meðalskor sitt upp í 14,4 stig og tók einnig 9,4 fráköst í leik í átta leikjum Álftaness í úrslitakeppninni.

Hann lék tvo leiki á móti ÍR í fyrravetur, var með tíu stig í sigri á Álftanesi og var síðan með 15 stig og 11 fráköst i sigri í Mjóddinni.

„Dimitrios er fjölhæfur leikmaður sem fellur vel að leikstíl okkar og leikmannahóp. Hann kemur með reynslu frá Álftanesi, sterka háskólaboltaferil í Bandaríkjunum og yngri landsliðum Grikkja. Þetta eru sannkallaðar gleðifréttir fyrir okkur að fá hann til ÍR,“ segir Borche Ilievski þjálfari meistaraflokks karla, á miðlum ÍR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×