Upp­gjör og við­töl: Þróttur-Valur 0-2 | Valskonur á siglingu

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir var með mark og stoðsendingu í kvöld.
Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir var með mark og stoðsendingu í kvöld. Vísir/Diego

Þróttur tók á mót Val í fjórtándu umferð Bestu deildar kvenna á Avis vellinum í dag. Valur hafði betur með 2-0 sigri og virðast Valskonur vera að snúa við blaðinu eftir erfiða byrjun á tímabilinu.

Valsliðið hefur unnið þrjá leiki í röð og fimm af síðustu sex deildarleikjum sínum.

Leikurinn byrjaði rólega en tók fljótt við sér á 9. mínútu þegar Tinna Brá Magnúsdóttir, markvörður Vals, braut á Kaylu Rollins innan vítateigs. Tinna Brá gerði sér lítið fyrir og varði vítaspyrnu Katie Cousins af miklu öryggi.

Eftir vítaspyrnuna færðist fjör í leikinn og bæði lið skiptust á að sækja. Valskonur voru beinskeyttari og sköpuðu sér fleiri hættuleg færi. Eitt þeirra skilaði sér í netið á 45. mínútu þegar Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir skoraði og kom Val yfir. 0-1 fyrir Val og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Valur hóf seinni hálfleikinn af krafti og tvöfölduðu Valskonur forystu sína snemma þegar Jordyn Rhodes kom boltanum í netið.

Þróttur reyndi að svara en náði ekki að brjóta niður vörn Vals. Valskonur voru sterkari aðilinn og hefðu hæglega getað bætt við fleiri mörkum

Leikurinn endaði með 2-0 sigri Vals og er liðið í 4. sæti deildarinnar með 24 stig og heldur liðið áfram að safna mikilvægum stigum í lokasprettinum.

Atvik leiksins

Tinna Brá Magnúsdóttir varði vítaspyrnu snemma í leiknum og setti það tóninn fyrir góðri frammistöðu sinni út leikinn.

Stjörnur og skúrkar

Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir var með eitt mark og eina stoðsendingu. Hún skilaði sínu í dag.

Jordyn Rhodes var öflug í fremstu línu og hún skoraði líka seinna mark Vals.

Þórdís Elva Ágústsdóttir líklega best í liði Þróttar, en náði því miður ekki að nýta færin sín.

Stemning og umgjörð

Mjög góð stemning í rjómablíðu í Laugardalnum og fínasta mæting á leikinn.

Dómarar

Þorfinnur Gústaf Þorfinnsson var á flautunni, með honum voru Przemyslaw Janik og Guðni Freyr Ingvason. Gott flæði á leiknum og góðar ákvarðanir hjá dómarateyminu.

Matthías Guðmundsson: Sigur í fótbolta nærir

Valskonur sem hófu tímabilið illa og fengu töluverða gagnrýni fyrir frammistöðu sína, hafa nú snúið við blaðinu. Valur er nú í 4. sæti með 24 stig og eru farnar að saxa á forskot Þróttar í baráttunni um 3. sætið.

„Mér fannst þetta jafn leikur í fyrri hálfleik, tvö góð lið að mætast og leikurinn kaflaskiptur. Mér fannst við gera mjög vel þar en mér fannst við eiga seinni hálfleikinn frá byrjun.“ sagði Matthías Guðmundsson, ánægður eftir sigur liðsins í dag.

Valur skapaði sér fjölda góðra færi í leiknum en einungis tvö þeirra enduðu í netinu. Svipað var uppi á teningnum í síðasta leik Vals gegn Stjörnunni, þar sem mörg tækifæri fóru forgörðum. Matthías, þjálfari Vals telur að Valskonur eigi vissulega meira inni en bætir við að svona er fótboltinn stundum og fari ekki allir boltar í netið þrátt fyrir góða frammistöðu.

„Fótboltinn er svona og við eigum vissulega eitthvað inni, við skorum úr færum í dag en næst getum við fengið eitt færi og unnið. Þetta þýðir að við séum að gera eitthvað rétt og Valsliðið á meira inni ef við trúum því.“

Valsliðið var stigi frá því að vinna Bestu deild kvenna árið 2024. Því kom mörgum á óvart hversu illa Valur fór af stað í deildinni. Matthías, þjálfari Vals, segir gott gengi liðsins nýverið meðal annars vera uppbygging ofan á góðan sigur á móti Þór/KA fyrr í mánuðinum.

„Mér finnst eftir sigurinn á móti Þór/KA að það var mikill liðsbragur í gangi og allir að vinna fyrir hvor aðra. Eftir þann sigur kemur gleði og við höfum byggt vel ofan á það. Sigur í fótbolta nærir og það er mjög gaman. Það er góð stemning í hópnum og við erum að vinna sem lið.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira