Tíska og hönnun

Amman helsta fyrir­mynd tískudrottningar Reykja­víkur

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Anna Lísa Halls ræddi við blaðamann um tískuna.
Anna Lísa Halls ræddi við blaðamann um tískuna. Aðsend

„Haustið er uppáhalds árstíðin mín sem yfirleitt skín smá í gegnum klæðaburðinn minn þótt það sé sumar,“ segir hin 21 árs gamla Anna Lísa Hallsdóttir, tískudrottning og grafískur hönnuður. Anna Lísa er alltaf með eindæmum smart og vekur athygli hvert sem hún fer en hún ræddi við blaðamann um tískuna og fataskáp sinn.

Anna Lísa útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands núna í vor og starfar í tískuversluninni Spúútnik Reykjavík samhliða því að vera grafískur hönnuður.

Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?

Að tískan er ekki aðeins föt/hlutir, ég elska hvernig hún endurspeglar hvernig karakter maður er og hvernig manni líður að þessu sinni. Sömuleiðis hvernig hún getur skapað minningar og vakið upp tilfinningar!

Anna Lísa elskar tjáningarform tískunnar.Aðsend

Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?

Ég á margar flíkur sem eru mér dýrmætar og því er mjög erfitt að velja. En uppáhalds flíkin mín núna er gamall Aftur kjóll sem ég var svo heppin að finna í Rauða Krossinum um daginn. Sömuleiðis vintage svartir hælaskór sem ég fann á second hand söluforritinu Regn um daginn.

Anna Lísa elskar þessa skó sem hún keypti á second hand söluforritinu Regn.Aðsend

Eyðirðu miklum tíma í að velja föt hverju sinni?

Ég hef mjög gaman að því að skoða endalaust af flíkum, en oftast er ég alveg ákveðin með hvað ég vil og er yfirleitt búin að spá lengi í flíkinni áður en ég loksins kaupi hana. 

En eftir að ég byrjaði að fjárfesta meira í góðum gæðum og vel völdum flíkum þá tekur það styttri tíma að klæða mig fyrir daginn, þar sem ég teygi mig oftast í þær flíkur.

Anna Lísa leitast helst eftir klassískum gæðaflíkum.Aðsend

Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?

Afslappaður, gelló og klassískur!

Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina og hvernig þá?

Já hann hefur breyst mjög mikið í gegnum tíðina og heldur áfram að þróast. Ég finn að núna einbeiti ég mér meira að vanda valið og hugsa um góð gæði heldur en ég gerði áður fyrr.

Það hentar mér betur að eiga færri flíkur sem eru í betri gæðum heldur en að eiga alltof mikið af fötum. Ég nota mikið sömu flíkurnar aftur og aftur og finnst það frábært!

Nýturðu þess að klæða þig upp?

Já klárlega eitt það skemmtilegasta við daginn! Sérstaklega gaman að klæða sig upp fyrir viðburði.

Anna Lísa elskar að klæða sig upp.Aðsend

Hvað skiptir þig mestu máli í klæðaburði?

Vellíðan og þægindi er það sem skiptir mestu máli. Það skín svo í gegnum mann hvernig manni líður eftir því í hverju maður er í. Það er ótrúlegt hvað klæðaburður hefur mikil áhrif á sjálfsöryggi.

Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?

Ég sæki innblástur víða. Ég er lærður grafískur hönnuður úr LHÍ og lærði þaðan að sækja innblástur úr hverju sem er, hvort sem það er frá því að upplifa nýja menningarheima, úr list eða jafnvel bara úr tímaritum.

Svo er ég svo heppin með fólkið í kringum mig sem eru öll miklir fagurkerar og ég fæ mikinn innblástur frá. Sérstaklega vinkonur mínar og amma mín sem leggur alltaf mikinn metnað í klæðaburðinn sinn og er mikil tískufyrirmynd!

Amma Önnu Lísu ofurskvís á góðri stundu í den!Aðsend

Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?

Aðallega að hugsa ekki út í það hvað öðrum finnst, heldur að klæðast því sem þú vilt og líður vel í. Svo auðvitað að vanda valið vel og að vera umhverfisvæn.

Hver er eftirminnilegasta flík sem þú hefur klæðst og af hverju?

Akkúrat núna er það útskriftarkjóllinn minn frá All Saints. Hann er eftirminnilegur vegna þess að mér leið svo vel í honum, hann er með fallegar hreyfingar í sér og góður í sniðinu. Mjög Önnu Lísu-legur þó ég segi sjálf frá.

Hvað finnst þér heitast fyrir sumarið?

Ég er búin að vera mjög hrifin af því að para saman klassískan hvítan hlýrabol við fínar buxur eða pils þetta sumar. Einnig er ég nýlega búin að vera hrifin af öllu röndóttu eða skær bleiku.

Svo er haustið uppáhalds árstíðin mín sem yfirleitt skín smá í gegnum klæðaburðinn minn þótt það sé sumar.

Býrðu yfir einhverju góðu ráði þegar það kemur að tísku?

Að byggja góðan grunn í fataskápnum er lykilatriði og svo bæta við fleiri flíkum til þess að leika sér með. Það er búið að henta mér vel upp á síðkastið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.