Fótbolti

Táningi hótað líf­láti þrátt fyrir sigurinn á Víkingum

Sindri Sverrisson skrifar
Clement Bischoff verður í leikbanni í næstu umferð Sambandsdeildar Evrópu, eftir rauða spjaldið gegn Víkingi í gær.
Clement Bischoff verður í leikbanni í næstu umferð Sambandsdeildar Evrópu, eftir rauða spjaldið gegn Víkingi í gær. Getty/Boris Streubel

Þrátt fyrir að Bröndby-fólk hafi haft mikla ástæðu til að gleðjast í gærkvöld, eftir magnaðan 4-0 sigur gegn Víkingi sem kom liðinu í næstu umferð Sambandsdeildar Evrópu í fótbolta, þá vörpuðu ljót skilaboð til eins leikmanna liðsins skugga á fögnuðinn.

Bröndby hafði tapað 3-0 í Fossvogi í síðustu viku og staða liðsins varð enn verri í fyrri hálfleik í Danmörku í gær, þegar hinn 19 ára gamli Clement Bischoff fékk beint rautt spjald fyrir að stappa viljandi á maga Tariks Ibrahimagic.

Bröndby endaði þó á að vinna 4-0 og einvígið þar með 4-3 en það kom ekki í veg fyrir að hatursfull og ljót skilaboð væru send á Bischoff í gegnum samfélagsmiðla. Þetta kom fram í fréttatilkynningu frá Bröndby.

„Í tengslum við sigurinn á fimmtudag hefur Clement Bischoff fengið hatursfull og rasísk skilaboð sem og líflátshótanir.

Bröndby IF tekur harða afstöðu gegn þessum viðbjóðslegu hatursskilaboðum og hótunum sem Clement hefur fengið, og gegn öllum hatursskilaboðum, og ekki síður gegn þeim sem þau senda.

Ekkert réttlætir svona forkastanlega hegðun og það að hóta leikmönnum eða starfsmönnum félagsins fer yfir öll mörk varðandi það hvað félagið getur sætt sig við,“ segir í tilkynningunni þar sem tekið er fram að unnið verði náið með yfirvöldum og allt reynt til að finna sökudólgana og sjá til þess að þeir taki afleiðingum gjörða sinna. Staðið verði þétt við bakið á Clement.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×