Íslenski boltinn

Sjáðu eitt af mörkum ársins og þrennu Jordyn Rhodes

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir (önnur frá vinstri) skoraði tvö mörk gegn Val, annað þeirra sérlega glæsilegt.
Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir (önnur frá vinstri) skoraði tvö mörk gegn Val, annað þeirra sérlega glæsilegt. vísir/diego

Eftir að hafa verið undir í hálfleik kom Valur til baka og vann 4-2 sigur á Stjörnunni í Bestu deild kvenna í gær. Jordyn Rhodes skoraði þrennu í seinni hálfleik og þá leit eitt af mörkum ársins dagsins ljós.

Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir kom Val yfir á 25. mínútu en fimm mínútum fyrir hálfleik jafnaði Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir fyrir Stjörnuna með skallamarki.

Á lokamínútu fyrri hálfleiks kom Úlfa svo Garðbæingum yfir með gullfallegu marki. Hún fékk boltann þá á vinstri kantinum, lét vaða og boltinn söng í fjærhorninu, óverjandi fyrir Tinnu Brá Magnúsdóttur í marki Valskvenna.

Heimakonur sneru dæminu sér í vil í seinni hálfleik og Jordyn skoraði þá þrjú mörk. Sú bandaríska tvöfaldaði markafjölda sinn í sumar í leiknum í gær og er komin með sex mörk í sumar. Hún er markahæsti leikmaður Vals sem er í 4. sæti deildarinnar. Valskonur hafa unnið fjóra af síðustu fimm leikjum sínum.

Klippa: Valur 4-2 Stjarnan

Stjarnan er í 6. sæti deildarinnar með fimmtán stig. Efstu sex liðin spila sín á milli í úrslitakeppni og neðstu fjögur liðin.

Mörkin úr leik Vals og Stjörnunnar má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×