Fótbolti

Fókus á bolta ekki bullur: „Á ekki að sjást í kringum fót­bolta­leiki“

Aron Guðmundsson skrifar
Sölvi Geir Ottesen, þjálfari Víkings Reykjavíkur
Sölvi Geir Ottesen, þjálfari Víkings Reykjavíkur vísir / diego

Sölvi Geir Otte­sen, þjálfari Víkings Reykja­víkur segir sína menn ekki geta fallið til baka og múrað fyrir mark sitt í mikilvægum seinni leik gegn danska stór­liðinu Brönd­by í undan­keppni Sam­bands­deildarinnar í fót­bolta í kvöld. Hann á allt eins von á því að það verði baulað á sig sökum fortíðar hans í Kaup­manna­höfn.

Glæstur 3-0 sigur Víkinga hér heima í fyrri leik liðanna setur þá í góða stöðu en þeir geta ekki leyft sér að mæta ró­legir í leik kvöldsins þar sem sæti í næstu um­ferð er í boði keppninnar er í boði.

„Ég er bara mjög spenntur fyrir seinni leiknum, þetta verður hörku leikur og vissu­lega náðum við í gott vega­nesti með frammistöðunni og úr­slitunum í fyrri leiknum,“ segir Sölvi Geir í sam­tali við íþrótta­deild. „Maður bjóst kannski alveg við þessum tölum komandi inn í seinni leikinn en við unnum svo sannar­lega fyrir því með frábærri frammistöðu.

„Þetta ein­vígi er langt frá því að vera búið, við gerum okkur alveg grein fyrir því. Brönd­by er hörku öflugt lið og eru að fara spila á sínum heima­velli með stuðningi sinna manna.“

Víkingar geti ekki komið inn í leikinn, fallið til baka og múrað fyrir markið.

„Reynt að verja eitt­hvað for­skot í níutíu mínútur, það mun bara koma okkur í verri stöðu. Við þurfum að vera djarfir í að spila okkar bolta, halda í hann og reyna særa þá þegar þeir eru búnir að setja mikla pressu og koma hátt upp á okkur.“

„Vonandi hegða þeir sér betur núna“

Það varð uppi fótur og fit eftir fyrri leik liðanna þar sem að svekktir stuðnings­menn Brönd­by gengu ber­serks­gangi, ollu tjóni á heima­velli Víkinga og réðust á stuðnings­menn Víkings. Evrópska knatt­spyrnu­sam­bandið hefur þar af leiðandi sett seinni leikinn á hæsta öryggis­stig. Sölvi og hans menn halda sér frá öllum þessum málum.

„Þetta er í raun ekkert sem við hugsum út í eða komum nálægt. Þetta er ekki í okkar höndum og eina sem við getum gert er að ein­beita okkur að því sem við ætlum að gera inn á vellinum. Allt annað kemur ekki nálægt okkur þannig séð. Sem betur fer erum við með gott fólk sem sinnir þessum hluta. En vissu­lega er þetta leiðin­legt og á ekki að sjást í kringum fót­bolta­leiki, svona hegðun en vonandi hegða þeir sér betur núna og verða með góða stemningu og styðja við bakið á sínum mönnum.“

Sölvi lék á sínum tíma með erki­fjendum Brönd­by í FC Kaup­manna­höfn og varð í tví­gang danskur meistari, mikill rígur er á milli félaganna og á Sölvi allt eins von á því að það verði baulað á hann á morgun.

„Það kæmi mér ekkert á óvart að þeir myndu láta í sér heyra. Við spáum bara í okkar leik, hvernig við nálgumst hann og viljum spila.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×