Golf

Gunn­laugur byrjar vel á móti þar sem til mikils er að vinna

Aron Guðmundsson skrifar
Gunnlaugur Árni hefur verið að gera frábæra hluti upp á síðkastið
Gunnlaugur Árni hefur verið að gera frábæra hluti upp á síðkastið Vísir/Getty

Kylfingurinn Gunn­laugur Árni Sveins­son átti góða byrjun á US Amateur Champions­hip mótinu sem haldið er á The Olympic Club í San Fransisco og er í fimmta sæti, tveimur höggum á eftir efstu kylfingum eftir fyrsta hring.

Mótið er stærsta mót ársins hjá áhuga­kylfingum en þar mætast 312 af fremstu áhuga­kylfingum heims en mótið er á vegum bandaríska golf­sam­bandsins.

Gunn­laugur Árni lék fyrsta hring á tveimur höggum undir pari vallarins eða á alls 68 höggum og er jafn nokkrum kylfingum í fimmta sæti mótsins.

Það eru Eng­lendingurinn Charli­e Foster og Bandaríkjamaðurinn Tommy Morri­son sem leiða mótið eftir fyrsta hring á fjórum höggum undir pari.

Á fyrstu tveimur hringjum mótsins er leikinn högg­leikur. Efstu 64 kylfingar að þeim hringjum loknum halda áfram í holu­keppni mótsins. Sam­kvæmt upp­lýsingum frá Golfsambandi Íslands fer útsláttar­keppni mótsins svo fram yfir fimm daga og lýkur með 36 holu ein­vígi síðustu tveggja kylfinganna sunnu­daginn 17 ágúst.

Og það er mikið í húfi fyrir sigur­vegara mótsins því sá mun fá sæti á Masters, Opna bandaríska sem og Opna breska risamótunum á næsta ári.

Gunn­laugur Árni kom inn í US Amateur Champions­hip eftir að hafa slegið í gegn á sínu fyrsta ári í bandaríska háskólagolfinu þar sem að hann leikur með liði LSU. Sem stendur vermir hann 13.sæti á heims­lista áhuga­kylfinga. Hann heldur út í annan hring sinn á mótinu seinna í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×