Enski boltinn

Albert lagði upp á Old Trafford í síðasta leik United fyrir tíma­bilið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Albert Guðmundsson á stoðsendingu fyrir Fiorentina á móti Manchester United á Old Trafford í dag.
Albert Guðmundsson á stoðsendingu fyrir Fiorentina á móti Manchester United á Old Trafford í dag. Gety/Image Photo Agency

Albert Guðmundsson og félagar í Fiorentina gerðu 1-1 jafntefli í æfingarleik við Manchester United á Old Trafford í dag. Það var verið að spila um Snapdragon bikarinn og United vann 5-4 í vítakeppni.

Þetta var síðasti leikur Manchester United áður en enska úrvalsdeildin hefst um næstu helgi þar sem fyrsti leikur United verður á móti Arsenal.

Albert var í byrjunarliði Fiorentina, fremstur á miðjunni, fyrir aftan framherjaparið Edin Dzeko og Moise Kean.

Albert lagði upp mark strax á áttundu mínútu en markið skoraði Simon Sohm með viðstöðulausu skoti úr vítateignum eftir hornspyrnu frá Alberti.

United jafnaði metin sautján mínútum síðar þegar Robin Gosens varð fyrir því óláni að skalla hornspyrnu Bruno Fernandes í eigið mark.

Þetta voru einu mörkin í leiknum sjálfum og því var það vítaspyrnukeppni sem réði úrslitum.

Þar varði Altay Bayindir víti frá Fabiano Parisi og Kobbie Mainoo skoraði úr síðustu spyrnu United. United vann vítakeppnina 5-4.

Bruno Fernandes, Matheus Cunha, Diogo Dalot og Amad Diallo skoruðu úr sínum vítum. Albert tók ekki víti af ví að hann var farinn af velli.

Albert var tekin af velli á 79. mínútu. 24 af 26 sendingum hans heppnuðust í leiknum eða 92 prósent en hann reyndi ekki skot og kom 42 sinnum við boltann.

David De Gea, fyrrum markvörður Manchester United, fékk frábærar móttökur á Old Trafford og heiðursskiptingu undir lok leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×