Fótbolti

Sjáðu glatað skot breytast í skallamark og Tryggva tryggja jafn­tefli

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Tryggvi Hrafn tryggði Valsmönnum jafna stöðu fyrir seinni leikinn. 
Tryggvi Hrafn tryggði Valsmönnum jafna stöðu fyrir seinni leikinn.  Rob Casey/SNS Group via Getty Images

Valur náði í jafntefli gegn litáenska liðinu Kauno Zalgiris í gærkvöldi. Heimamenn tóku forystuna með furðumarki en Tryggvi Hrafn tryggði jafntefli með jöfnunarskallamarki undir lokin. Mörkin má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Zalgiris - Valur 1-1

Markalaust var í hálfleik en heimamenn komust yfir eftir tæpan stundarfjórðung í seinni hálfleik. Frakkinn Fabien Ourega hitti boltann hrikalega illa en honum til happs lenti skotið á skallanum á Romualdas Jansonas sem stýrði honum listilega yfir línuna.

Valsmenn voru næstum því lentir tveimur mörkum undir en tókst svo að jafna.

Adam Ægir Pálsson átti stórgóða fyrirgjöf frá hægri, beint á hausinn á Tryggva Hrafni Haraldssyni. Markvörðurinn litáíski misreiknaði boltann, ætlaði að grípa fyrirgjöfina en Tryggvi stakk sér fram fyrir hann og stangaði boltann í autt netið.

Um var að ræða fyrri leikinn í tveggja leikja einvígi í annarri umferð undankeppni Sambandsdeildarinnar. Seinni leikur liðanna fer fram næsta fimmtudag á Hlíðarenda.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×