Fótbolti

Óttar Magnús færir sig um set á Ítalíu

Siggeir Ævarsson skrifar
Óttar Magnús lék eitt tímabil með Oakland Roots í Bandaríkjunum þar sem hann skoraði 19 mörk í 30 leikjum
Óttar Magnús lék eitt tímabil með Oakland Roots í Bandaríkjunum þar sem hann skoraði 19 mörk í 30 leikjum Vísir/Getty

Framherjinn Óttar Magnús Karlsson hefur ákveðið að færa sig um set í ítölsku C-deildinni, frá SPAL til AC Renate.

Óttar, sem er 28 ára, hefur komið nokkuð víða við á ferlinum en hefur verið með annan fótinn á Ítalíu síðan 2020 þegar hann gekk í raðir Venezia. Hann samdi við SPAL síðasta sumar til tveggja ára en fer nú á frjálsri sölu til Renate.

Óttar fór 16 ára til Hollands þar sem hann var í akademíu Ajax í þrjú ár. Hann hefur einnig leikið í Noregi, Svíþjóð og Bandaríkjunum en á Íslandi lék hann með Víkingum og var valinn efnilegasti leikmaður Pepsi deildarinnar 2016, þá 19 ára gamall. Hann á ellefu landsleiki með A-landsliði Íslands en lék síðast með landsliðinu 2022.

Renate greinir frá félagaskiptunum á Instagram en það er spurning hvort Óttar skilji þennan glæsilega feld ekki eftir heima þar sem það spáir 36° hita í Renate í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×