Fótbolti

Styrkir til strákanna í Fylki og Sel­fossi úr minningar­sjóði Egils Hrafns

Sindri Sverrisson skrifar
Styrkurinn var veittur þegar Fylkir og Selfoss mættust á föstudag.
Styrkurinn var veittur þegar Fylkir og Selfoss mættust á föstudag. Mynd/Hulda Margrét

Í tengslum við leik Fylkis og Selfoss í Lengjudeild karla í fótbolta síðastliðinn föstudag var veittur styrkur úr minningarsjóði Egils Hrafns en hann tengdist báðum félögum sterkum böndum.

Fyrir leikinn fékk 2. flokkur beggja félaga, Fylkis og Selfoss, afhentan styrk upp á 250 þúsund krónur til eflingar á starfi sínu, samkvæmt frétt á vef Fylkis.

Egill Hrafn Gústafsson lést þann 25. maí 2023, aðeins sautján ára gamall. Hann var mikill fótboltaunnandi og lék með Fylki upp yngri flokkana en var sömuleiðis mikill Selfyssingur og dvaldi á Selfossi stóran hluta uppvaxtaráranna, hjá ömmu, afa og frændfólki sínu þar.

Í kjölfar andláts Egils Hrafns var stofnaður minningarsjóður til að heiðra minningu hans. Sjóðurinn hefur það að markmiði að styðja við verkefni sem hvetja ungmenni á aldrinum 16–20 ára til áframhaldandi þátttöku í íþrótta- og tómstundastarfi og þar er leikgleði, ást á fótboltanum og skemmtun höfð að leiðarljósi, eins og segir í frétt Fylkis.

Þar segir einnig að Egill hafi verið litríkur og skemmtilegur einstaklingur sem fór mikið fyrir. Hann sagði hlutina eins og þeir voru, hispurslaust og án fílters. Þau sem þekktu hann eigi ótal fallegar minningar og margar góðar Egilssögur.

Með starfsemi styrktarsjóðsins er minningu Egils Hrafns á lofti og sjóðurinn styður við það sem Egill sjálfur brann fyrir. Knattspyrnudeildir Fylkis og Selfoss senda fjölskyldu hans innilegar þakkir fyrir þeirra ómetanlega framlag í ungmennastarfið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×