Íslenski boltinn

„Hún er klár­lega skemmti­kraftur“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aida Kardovic er óhrædd við að að taka á varnarmenn og sýnir oft leikni sína inn á vellinum.
Aida Kardovic er óhrædd við að að taka á varnarmenn og sýnir oft leikni sína inn á vellinum. @fhl.fotbolti/S2 Sport

FHL er nýliði í Bestu deild kvenna í fótbolta sumar og einn leikmaður liðsins hefur þegar vakið mikla athygli hjá sérfræðingum Bestu markanna.

Aida Kardovic lífgar mikið upp á deildina en þetta er 25 ára sóknarsinnaður miðjumaður frá Serbíu.

FHL mætir FH í Kaplakrikanum í dag og þar er full ástæða til að fylgjast með þessum skemmtilega leikmanni ef marka má umfjöllun Bestu markanna um hana í síðasta þætti.

Klippa: Bestu Mörkin: Skemmtikrafturinn Aida Kardovic

„Við erum með Aidu Kardovic sem við spáum að geti orðið pínu skemmtikraftur í þessari deild,“ sagði Helena Ólafsdóttir, umsjónarmaður Bestu markanna.

Stundum að reyna aðeins of flókna hluti

„Hún er klárlega skemmtikraftur. Það er orð sem má nota yfir hana. Ef það má setja eitthvað út á hana þá er ‚less is more' stundum. Hún er stundum að reyna aðeins of flókna hluti,“ sagði Mist Edvardsdóttir, sérfræðingur Bestu markanna.

„Hún er að tapa boltanum á slæmum stöðum en virkilega skemmtilega leikmaður, mjög leikin og flink. Þetta er svona leikmaður sem fólk borgar sig inn á fótboltaleiki til að horfa á spila fótbolta,“ sagði Mist.

„Það er svona Katrín Ómars í henni“

„Það er svona Katrín Ómars í henni,“ sagði Margrét Lára Viðarsdóttir, sérfræðingur Bestu markanna, og var þar að tala um fyrrum liðsfélaga sinn í íslenska landsliðinu og leikmann sem varð tvisvar Englandsmeistari með Liverpool.

„Já er það ekki. Hún er snögg að gera hlutina og kannski reyndir stundum of mikið. Stundum er þjálfarinn að klóra sér í hausnum,“ sagði Helena.

„Og örugglega samherjar líka. Þetta er skemmtilegur leikmaður og hún á örugglega eftir að skora einhver skemmtileg mörk í sumar,“ sagði Mist.

Það má sjá umfjöllunina um Aidu Kardovic hér fyrir ofan sem og svipmyndir af tilþrifum hennar úr leiknum á móti Val.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×