Gruggug niðurstaða ráðuneytis Ólafur Þ. Stephensen skrifar 13. mars 2013 06:00 Áhrif Kárahnjúkavirkjunar á lífríki og umhverfi Lagarfljóts eru mikil og meiri en stjórnvöld og Landsvirkjun létu skína í á sínum tíma. Þetta hefur komið fram í fréttum Fréttablaðsins undanfarna daga. Samkvæmt úttektum Landsvirkjunar á áhrifum virkjunarinnar á fljótið er vatnsmagnið í því meira en öll reiknilíkön gerðu ráð fyrir. Rof á bökkum árinnar hefur því aukizt og grunnvatnsstaða hefur hækkað. Bæjarstjórnin á Fljótsdalshéraði hefur lýst áhyggjum sínum af því að bújarðir og náttúruminjasvæði liggi undir skemmdum og vill að Landsvirkjun grípi til mótvægisaðgerða. Þá liggur einnig fyrir, samkvæmt óbirtri skýrslu Landsvirkjunar, að áhrifin á lífríkið í fljótinu sjálfu eru mikil og neikvæð. Gunnar Jónsson, formaður bæjarráðs Fljótsdalshéraðs, sagði Fréttablaðinu frá niðurstöðunum í gær: "Fljótið er orðið svo dökkt að sólarljós kemst ekki niður og þar með fer þörungagróðurinn. Lífríkið er nánast búið í Lagarfljóti." Þetta átti út af fyrir sig ekki að koma á óvart. Í matsskýrslum, sem gerðar voru á sínum tíma, áður en Kárahnjúkavirkjun var reist, var því spáð að aurinn í fljótinu myndi aukast við það að gruggugri jökulá yrði veitt í það og lífsskilyrði myndu snarversna. Þetta var einn af þeim þáttum sem réðu því að Skipulagsstofnun vildi á sínum tíma ekki leyfa byggingu virkjunarinnar vegna áhrifa hennar á umhverfið. Umhverfisráðuneytið sneri þeim úrskurði við, eins og mörgum er í fersku minni. Í úrskurði ráðuneytisins var raunar tekið undir að vatnsborðið myndi hækka og svifaurinn í fljótinu margfaldast, sem meðal annars myndi hafa neikvæð áhrif á lífsskilyrði fugla, fiska og annarra lífvera. Af þessu var hins vegar dregin þessi mátulega rökrétta niðurstaða: "Vegna eðlis Lagarfljóts og lífríkis þess er það mat ráðuneytisins að breytingar á svifaur muni ekki valda miklum áhrifum á lífríki vatnsins. Ráðuneytið telur að með lækkun klapparhaftsins ofan við Lagarfljótsstíflu […] til þess að draga úr áhrifum vatnsflutninganna í Lagarfljóti muni áhrif framkvæmdarinnar á líf í og við fljótið ekki verða mikil." Það er rétt, sem ítrekað hefur verið bent á, síðast í gær eftir að frétt Fréttablaðsins birtist, að umhverfisráðuneytið og þáverandi umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, skulda íbúum við Lagarfljót og raunar öllum almenningi skýringar á því hvernig hægt var að komast að þessari niðurstöðu, þvert á öll gögn sem fyrir lágu. Landsvirkjun hefur lýst sig reiðubúna að grípa til frekari mótvægisaðgerða og rannsókna í samráði við heimamenn. Það er ágætt út af fyrir sig. En þetta mál hlýtur líka að vera sterk áminning um að pólitíkusar hemji tilhneigingu sína til að virða rannsóknaniðurstöður og ráð vísindamanna að vettugi þegar virkjanaframkvæmdir eru annars vegar, hvort sem þeir vilja virkja eða ekki virkja. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Framhaldsskólinn: horfum til framtíðar og finnum lausnir Simon Cramer Larsen Skoðun Kynhlutlaust klerkaveldi Haukur Þorgeirsson Skoðun Er skóli án aðgreiningar barn síns tíma? Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir Skoðun Ódýrt á pappír, dýrt í raun – og þjóðin blæðir Vilhelm Jónsson Skoðun 900 metrar sem geta breytt Grafarvogi Friðjón Friðjónsson Skoðun Menntastefna á finnskum krossgötum Álfhildur Leifsdóttir Skoðun Aðför að heildrænni endurhæfingu: Skammsýni á Reykjalundi Þórunn Hanna Halldórsdóttir,Elísabet Arnardóttir,Sigríður Magnúsdóttir,Þóra Másdóttir Skoðun Samvinna, en ekki einangrun María Malmquist Skoðun Ég reyndi að byggja ódýrar íbúðir í Reykjavík Pétur Marteinsson Skoðun Þéttingarstefna eða skynsemi? Ögmundur Ísak Ögmundsson Skoðun
Áhrif Kárahnjúkavirkjunar á lífríki og umhverfi Lagarfljóts eru mikil og meiri en stjórnvöld og Landsvirkjun létu skína í á sínum tíma. Þetta hefur komið fram í fréttum Fréttablaðsins undanfarna daga. Samkvæmt úttektum Landsvirkjunar á áhrifum virkjunarinnar á fljótið er vatnsmagnið í því meira en öll reiknilíkön gerðu ráð fyrir. Rof á bökkum árinnar hefur því aukizt og grunnvatnsstaða hefur hækkað. Bæjarstjórnin á Fljótsdalshéraði hefur lýst áhyggjum sínum af því að bújarðir og náttúruminjasvæði liggi undir skemmdum og vill að Landsvirkjun grípi til mótvægisaðgerða. Þá liggur einnig fyrir, samkvæmt óbirtri skýrslu Landsvirkjunar, að áhrifin á lífríkið í fljótinu sjálfu eru mikil og neikvæð. Gunnar Jónsson, formaður bæjarráðs Fljótsdalshéraðs, sagði Fréttablaðinu frá niðurstöðunum í gær: "Fljótið er orðið svo dökkt að sólarljós kemst ekki niður og þar með fer þörungagróðurinn. Lífríkið er nánast búið í Lagarfljóti." Þetta átti út af fyrir sig ekki að koma á óvart. Í matsskýrslum, sem gerðar voru á sínum tíma, áður en Kárahnjúkavirkjun var reist, var því spáð að aurinn í fljótinu myndi aukast við það að gruggugri jökulá yrði veitt í það og lífsskilyrði myndu snarversna. Þetta var einn af þeim þáttum sem réðu því að Skipulagsstofnun vildi á sínum tíma ekki leyfa byggingu virkjunarinnar vegna áhrifa hennar á umhverfið. Umhverfisráðuneytið sneri þeim úrskurði við, eins og mörgum er í fersku minni. Í úrskurði ráðuneytisins var raunar tekið undir að vatnsborðið myndi hækka og svifaurinn í fljótinu margfaldast, sem meðal annars myndi hafa neikvæð áhrif á lífsskilyrði fugla, fiska og annarra lífvera. Af þessu var hins vegar dregin þessi mátulega rökrétta niðurstaða: "Vegna eðlis Lagarfljóts og lífríkis þess er það mat ráðuneytisins að breytingar á svifaur muni ekki valda miklum áhrifum á lífríki vatnsins. Ráðuneytið telur að með lækkun klapparhaftsins ofan við Lagarfljótsstíflu […] til þess að draga úr áhrifum vatnsflutninganna í Lagarfljóti muni áhrif framkvæmdarinnar á líf í og við fljótið ekki verða mikil." Það er rétt, sem ítrekað hefur verið bent á, síðast í gær eftir að frétt Fréttablaðsins birtist, að umhverfisráðuneytið og þáverandi umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, skulda íbúum við Lagarfljót og raunar öllum almenningi skýringar á því hvernig hægt var að komast að þessari niðurstöðu, þvert á öll gögn sem fyrir lágu. Landsvirkjun hefur lýst sig reiðubúna að grípa til frekari mótvægisaðgerða og rannsókna í samráði við heimamenn. Það er ágætt út af fyrir sig. En þetta mál hlýtur líka að vera sterk áminning um að pólitíkusar hemji tilhneigingu sína til að virða rannsóknaniðurstöður og ráð vísindamanna að vettugi þegar virkjanaframkvæmdir eru annars vegar, hvort sem þeir vilja virkja eða ekki virkja.
Aðför að heildrænni endurhæfingu: Skammsýni á Reykjalundi Þórunn Hanna Halldórsdóttir,Elísabet Arnardóttir,Sigríður Magnúsdóttir,Þóra Másdóttir Skoðun
Aðför að heildrænni endurhæfingu: Skammsýni á Reykjalundi Þórunn Hanna Halldórsdóttir,Elísabet Arnardóttir,Sigríður Magnúsdóttir,Þóra Másdóttir Skoðun