Frestur er bestur Stefán Pálsson skrifar 23. nóvember 2009 06:00 Eitt fjölmargra metnaðarfullra mála ríkisstjórnarinnar er stofnun sérstaks stjórnlagaþings. Slík stofnun hefði það að markmiði að endurskoða stjórnarskrá Íslands í veigamiklum atriðum og felur hugmyndin í sér viðurkenningu á þeirri óþægilegu staðreynd að Alþingi hefur á liðnum árum og áratugum reynst ófært um að koma sér saman um ýmsar mikilvægar breytingar. Ekki má samt gera of lítið úr því sem þó hefur áunnist, til dæmis hefur mannréttindakafli stjórnarskrárinnar verið rækilega endurskoðaður með ágætum árangri. Rætt hafði verið um að afgreiða lög um stjórnlagaþing á þessum vetri, svo unnt væri að kjósa til þess samhliða sveitarstjórnarkosningum næsta vor. Nú virðist hins vegar æ líklegra að málið frestist þannig að kosið verði til þingsins á árinu 2011 og störfum þess ljúki ári síðar. Ætla má að sparnaðarsjónarmið ráði nokkru um þessa frestun, enda ljóst að eigi stjórnlagaþing að standa undir nafni mun starfsemi þess kosta talsverðar fjárhæðir. Þá er ljóst að talsvert vantar upp á að frumvarpið um stofnun þingsins teljist fullburða og fjarri því að um það ríki sú pólitíska sátt sem æskilegt verður að telja. Hætt er við að sumir þeirra sem bundið hafa miklar vonir við starfsemi stjórnlagaþings og niðurstöður þess, telji sig svikna með slíkri frestun. Á hinn bóginn mætti líta svo á að frestunin verði til að styrkja verkefnið og auka líkurnar á jákvæðri útkomu. Helstu rökin fyrir því að kjósa til stjórnlagaþings um leið og sveitarstjórna snérust um sparnað vegna framkvæmdar kosninga, með samnýtingu kjördeilda og talningarfólks. Gallinn við þá tilhögun væri hins vegar sá að stjórnlagaþingskosningin myndi nær örugglega falla í skuggann. Reynslan af sveitarstjórnarkosningum síðustu ára er sú að á lokasprettinum vill umfjöllun fjölmiðla hverfast um persónur oddvita flokkanna í stærstu bæjum, blandað saman við síbylju skoðanakannana þar sem reynt er mæla fylgissveiflur frá degi til dags. Hið yfirlýsta markmið frumvarpsins um stjórnlagaþing, eins og kemur fram í greinargerð þess, er að í kosningunum takist á einstaklingar með þekkingu og áhuga á stjórnskipunarmálum. Skýrt kemur fram að ekki er ætlast til þess að frambjóðendur ráðist í dýra kosningarbaráttu til að vekja athygli á sér og stefnumálum sínum. Hvaða möguleika eiga slíkir frambjóðendur á að ná eyrum fólks á sama tíma og allir stjórnmálaflokkar keyra kosningavélar sínar og láta áróðurinn dynja á almenningi? Að sumu leyti má segja að það sem er mest spennandi við hugmyndina um stjórnlagaþing sé einmitt kosningabaráttan, þar sem pólitísk umræða í þjóðfélaginu myndi í fáeinar vikur snúast nær einvörðungu um málefni stjórnarskrárinnar. Stjórnmálalífið í landinu hefði gott af því að fara í slíka rýni og mögulega verður sú umræða frjórri en starfsemi sjálfs stjórnlagaþingsins. Það mun ekki nást á sama tíma og allir umræðuþættir snúast um lyklavöld í Ráðhúsinu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Mest lesið Við lifum á tíma fasisma Una Margrét Jónsdóttir Skoðun Kolefnishlutleysi eftir 15 ár? Hrafnhildur Bragadóttir,Birna Sigrún Hallsdóttir Skoðun Örvæntingarfullir bíleigendur í frumskógi bílastæðagjalda Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir Skoðun Hinir miklu lýðræðissinnar Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Ég er eins og ég er, hvernig á ég að vera eitthvað annað? Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir Skoðun Normið á ekki síðasta orðið Katrín Íris Sigurðardóttir Skoðun Er einhver hissa á fúskinu? Magnús Guðmundsson Skoðun Ráðherrann og illkvittnu einkaaðilarnir Freyr Ólafsson Skoðun Gleði eða ógleði? Haraldur Hrafn Guðmundsson Skoðun „Þótt náttúran sé lamin með lurk!“ Sigurjón Þórðarson Skoðun
Eitt fjölmargra metnaðarfullra mála ríkisstjórnarinnar er stofnun sérstaks stjórnlagaþings. Slík stofnun hefði það að markmiði að endurskoða stjórnarskrá Íslands í veigamiklum atriðum og felur hugmyndin í sér viðurkenningu á þeirri óþægilegu staðreynd að Alþingi hefur á liðnum árum og áratugum reynst ófært um að koma sér saman um ýmsar mikilvægar breytingar. Ekki má samt gera of lítið úr því sem þó hefur áunnist, til dæmis hefur mannréttindakafli stjórnarskrárinnar verið rækilega endurskoðaður með ágætum árangri. Rætt hafði verið um að afgreiða lög um stjórnlagaþing á þessum vetri, svo unnt væri að kjósa til þess samhliða sveitarstjórnarkosningum næsta vor. Nú virðist hins vegar æ líklegra að málið frestist þannig að kosið verði til þingsins á árinu 2011 og störfum þess ljúki ári síðar. Ætla má að sparnaðarsjónarmið ráði nokkru um þessa frestun, enda ljóst að eigi stjórnlagaþing að standa undir nafni mun starfsemi þess kosta talsverðar fjárhæðir. Þá er ljóst að talsvert vantar upp á að frumvarpið um stofnun þingsins teljist fullburða og fjarri því að um það ríki sú pólitíska sátt sem æskilegt verður að telja. Hætt er við að sumir þeirra sem bundið hafa miklar vonir við starfsemi stjórnlagaþings og niðurstöður þess, telji sig svikna með slíkri frestun. Á hinn bóginn mætti líta svo á að frestunin verði til að styrkja verkefnið og auka líkurnar á jákvæðri útkomu. Helstu rökin fyrir því að kjósa til stjórnlagaþings um leið og sveitarstjórna snérust um sparnað vegna framkvæmdar kosninga, með samnýtingu kjördeilda og talningarfólks. Gallinn við þá tilhögun væri hins vegar sá að stjórnlagaþingskosningin myndi nær örugglega falla í skuggann. Reynslan af sveitarstjórnarkosningum síðustu ára er sú að á lokasprettinum vill umfjöllun fjölmiðla hverfast um persónur oddvita flokkanna í stærstu bæjum, blandað saman við síbylju skoðanakannana þar sem reynt er mæla fylgissveiflur frá degi til dags. Hið yfirlýsta markmið frumvarpsins um stjórnlagaþing, eins og kemur fram í greinargerð þess, er að í kosningunum takist á einstaklingar með þekkingu og áhuga á stjórnskipunarmálum. Skýrt kemur fram að ekki er ætlast til þess að frambjóðendur ráðist í dýra kosningarbaráttu til að vekja athygli á sér og stefnumálum sínum. Hvaða möguleika eiga slíkir frambjóðendur á að ná eyrum fólks á sama tíma og allir stjórnmálaflokkar keyra kosningavélar sínar og láta áróðurinn dynja á almenningi? Að sumu leyti má segja að það sem er mest spennandi við hugmyndina um stjórnlagaþing sé einmitt kosningabaráttan, þar sem pólitísk umræða í þjóðfélaginu myndi í fáeinar vikur snúast nær einvörðungu um málefni stjórnarskrárinnar. Stjórnmálalífið í landinu hefði gott af því að fara í slíka rýni og mögulega verður sú umræða frjórri en starfsemi sjálfs stjórnlagaþingsins. Það mun ekki nást á sama tíma og allir umræðuþættir snúast um lyklavöld í Ráðhúsinu.